Að gerast þorpari

er nokkuð sem ég hef litla reynslu af.  Síðasta þorp sem ég bjó í, var Hveragerði fyrir tæpri hálfri öld. Það sem ég man þaðan er allt skemmtilegt, nema sú staðreynd að þar byrjaði maður að fikta við reykingar. En í þá daga þótti það töff, það var bara þannig.

Nú stendur til að flytja í þorp að nýju. Og ég neita þvi ekki að ég er spennt eins og krakki yfir því.

Maður liggur á netinu og í símanum, leitar að ódýrustu flutningsleiðunum, reynir að tryggja sér gott húsnæði og vinnu, lætur sig dreyma um nýja heimilið.

Svo þarf að fara í gegnum búslóðina sína og flokka. Þar stendur maður í hálfgerðu áfalli yfir því hvað búið er að sanka að sér. Þegar eru tvær bílfyllir farnar í Sorpu og þær verða fleiri. 

Ég kvaddi heimilislækninn í gær. Hann hefur passað upp á fjölskylduna í 16 ár og staðið sig ágætlega.

Það merkilega er, að þegar ég verð flutt burt, held ég að ég muni njóta borgarinnar mikið betur sem gestur en nú á meðan ég bý í henni. Ég sé alveg fyrir mér að ég muni geta skroppið í skoðunarferðir, tekið myndir af öllum húsum sem mér finnast falleg, setið hjá þeim fiðruðu við tjörnina, ólíkt og núna, þegar maður þeytist framhjá og öll veröldin sést bara út um gluggana á vinnubílnum.

Ég hlakka til.


Ævintýri í aðsigi.

Að aflokinni enn einni vinnuhelgi síðan ég byrjaði í leiguakstrinum, var eins og eitthvað innra með mér stigi á bremsurnar. Þessi helgi var með þeim verri, hvað ástand fólks í miðbænum varðaði.  Reytt, slagandi fólk í tættum sparifötum að fljúgast á, grenja, æla, míga og aðhafast fleira óprenthæft, blasti við hvert sem maður leit. Það marraði í glerbrotum undir dekkjunum, og af og til var slegið í bílinn án nokkurrar ástæðu. Fýlan og eymdin sem fylgir ofneyslu vímuefna lá yfir öllu. 

Ég hugsaði, hvað er ég eiginlega að gera hérna? Bíða eftir að keyra einhverja heim, vona að það sé gott fólk sem kemur í bílinn til mín, að það æli ekki út allan bílinn, eða sýni mér einhver leiðindi? 

Ég tók einfaldlega ákvörðun á sunnudagsmorguninn. Að koma mér og syni mínum burt úr þessu mannlega svaði sem hefur eyðilagt miðborg Reykjavíkur á kvöldin og næturnar um helgar.

Við munum flytja á vestfirðina í ágúst. Þar var ég í sveit mörg sumur. Ég virðist hafa fengið gullið sandkorn á milli fellinganna í heilanum, því að mig hefur alltaf langað vestur eftir að sumardvölunum lauk.

Og það er loksins að koma að því.


Hver getur...

Þetta eru hræðilegar kringumstæður að lenda í. Hver getur verndað okkur fyrir BÖNKUNUM, hinum ógurlegu landsráðendum, nýrisnum upp úr eigin ösku og eimyrju?

Skrímsli, nærð af óförum allra annarra en sín sjálfra, hampað af stjórnvöldum, lappirnar settar undir þá jafnóðum og þeir hrynja, til þess eins að koma fólki á götuna?

Aðfarir þessara stofnana koma sannarlega úr hörðustu átt. Það er varla að maður geti trúað þessu.


mbl.is Jörðin seld án auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breska veðurstofan.

Það finnst mér sérkennilegt að breska veðurstofan skuli hafa verið sá aðili sem hélt öllu flugi í Evrópu í járnklóm. Einhvern veginn hélt ég að sú íslenska ætti að vera þess vel umkomin að mæla öskufall og hættuna af því.

Það er þá engan veginn við íslenska aðila að sakast þó flugvélar hafi setið kyrrar undanfarið ef ég les þessa frétt rétt.  Það er alveg ágætt, en hvað er eiginlega með blessaða bretana orðið?  Þeir virðast hafa tögl og hagldir í lofti, á láði og á legi, vera í vandræðum með Gordon Brown, eru nýkomnir úr úr afleitum vetri, og eru að eyða tíma í að vera leiðinlegir við okkur Errm.  


mbl.is Keflavíkurflugvöllur opinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinna fyrir atvinnulausa.

Ég hafði lítið annað að gera í dag en að hugsa. Blessað heilabúið er nú ekki vant því að vinna mikið allajafna. En mér datt þó í hug hvort ekki væri góð hugmynd að fá atvinnulaust fólk til að fá rútur og skreppa austur fyrir fjall. Þar er gríðarlegt verkefni framundan í hreinsun ösku. Einhvern tímann var til eitthvað sem hét atvinnubótavinna. Ég veit ekki alveg hver greiddi laun þeirra sem unnu þá vinnu á sínum tíma, held það hafi verið ríki eða sveitarfélög. Því ekki að endurvekja þessa vinnu núna og hjálpa bændum í þrengingum þeirra?

Rannsóknarskýrsla Alþingis

hefur haft ýmsar óvæntar afleiðingar. Skyndilega stíga þeir tveir menn fram sem mest hafa verið á milli tanna fólks og viðurkenna mistök. Sáu þeir þau mistök fyrst þegar þeir lásu skýrsluna? Sé svo er hún mesta þarfaþing, og greinilega nýtur rannsóknarnefndin trausts. Nú er hins vegar að sjá hvort fleiri lesa skýrsluna og sjá ljósið í kjölfarið. Sjálf hef ég ekki treyst mér til að lesa hana nema stuttar glefsur í senn. Ég held hvort sem er að ég sé ekki nefnd á nafn í henni.

Þessir tveir menn heita því að leggja allt sitt í að greiða sínar skuldir. Ég vona þeirra vegna að einhvern tíma gleymi fólk nöfnum þeirra og að þeir geti horfið hljóðlega í fjöldann til að lifa í ró það sem eftir er.

En málið er bara það að fólk gleymir aldrei hver hefur orðið morðingi, eða hver átti þátt í erfiðleikum þjóðarinnar, hver var glæpon eða stjórnmálamaður. Allt slíkt helst lifandi í munnmælum og sögubókum.

Mannorðið er dýrmætara en nokkur fjársjóður, og ekkert getur keypt það hreint, hafi maður farið illa með það. En til að öðlast frið í sál sinni verður að fyrirgefa og umbera, jafnvel þessum mönnum sem hafa farið svo illa með efnahag okkar. Byrðar haturs og beiskju eru níðþungar og aðeins á herðum þess sem ekki fyrirgefur.


Hugleiðingin í kvöld, bilaðir bílar.

Ég á núna Musso jeppa. Ég hef þegar látið lagfæra ýmislegt í honum sem mér er sagt að hann eigi sameiginlegt með tegundarbræðrum sínum mörgum, svosem það að framdrifið var týnt þegar ég fékk hann. Sonur minn sagði mér svo í dag eftir félaga sínum að þessum bílum hætti við að brjóta blokkina þegar tannhjól fyrir tímakeðjuna færi, þá brotnaði strekkjarinn og tæki með sér bita úr blokkinni. Það hefur ekki bilað hjá mér samt.

Ég átti áður Cherokee jeppa. Alla tíð sem ég átti hann, þjáðist hann af hikstum. Einnig ryðgaði hann illa, sérstaklega á toppnum. Í restina var hann orðinn regnhlífasamtök eiginlega. Mér var sagt af eigendum þeirrar útgáfu sem ég átti að þetta væru algengir kvillar.

Svona hlutir sem í raun eru gallar á bílunum fást aldrei bættir. Bílarnir eru orðnir of gamlir þegar þessi sameiginlegu vandamál koma upp.

Mússinn minn er í góðu lagi eins og er. En maður getur ekki að sér gert að hugleiða hvort rétt væri að auglýsa eftir reynslusögum eigenda slíkra bíla. Bara svo maður geti vitað hvort eitthvað bíður eftir að bila. Óvitlaust væri að fólk gæti deilt því á sérstökum vef.


Snjókast í mánaskini.

Ég var svo heppin að eiga erindi langleiðina til Þingvalla í kvöld með bandaríska fjölskyldu. Meiningin var að sjá norðurljósin.

Því miður létu þau lítið sjá sig, en tunglið skein glatt og stjörnudýrðin var stórkostleg. Fólkið fann sér snjóskafl og lék sér um stund við snjókast þar til þeim varð kalt.

Þegar við komum að upplýsingaskiltinu um þjóðgarðinn, komum við auga á eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Það fór langt með að bæta fyrir norðurljósaskortinn. Það gaus þarna vel, rauðglóandi strókar þeyttust í loft upp. Við góndum góða stund á sjónarspilið alveg heilluð. Þegar maður sér landið sitt og furður þess með augum gestanna, steinhættir maður að taka það sem sjálfsagðan hlut. Þetta eru mögnuð forréttindi að fá að búa á þessu landi.


Frystikistan.

Frúin tók sig til og keypti frystikistu á útsölu í Rafha í dag. Með hjálp míns góða mágs komst hún fljótt og vel heim.

Þetta er ágæt stærð, rúmar nokkra kjötskrokka... af naggrísum eða minni dýrum. 

Kistan er enn í kassanum því að frúin situr við tölvuna og er að skrifa um margumtalaða kistu.

Það er líklega best að hún verði kyrr í kassanum í nótt, sérstaklega fyrst að naggrísirnir eru enn við hestaheilsu allir sex...Errm


Test

Test

Um bloggið

Sigríður Ágústa Hilmarsdóttir

Höfundur

Sigríður Ágústa Hilmarsdóttir
Sigríður Ágústa Hilmarsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • car logo cadillac
  • cadillac big
  • alfa romeo brand wallpaper
  • Dodge Logo
  • abarth brand wallpaper

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband